Mygla er örsmár sveppur sem fjölgar sér með gróum sem svífa í loftinu. Hún dafnar best í röku umhverfi og þroskast þegar fjórir þættir eru til staðar: næring, loft, hentugt hitastig og raki. Myglugró eru eðlilegur hluti af umhverfi okkar og finnast víða í náttúrunni, t.d. í jarðvegi, lofti, vatni og gróðri.

Gróin berast auðveldlega inn í byggingar, t.d. með fatnaði, skóm eða gegnum glugga og loftop. Það er nánast ógerlegt að halda innilofti algjörlega lausu við myglugró nema í sérhæfðu umhverfi, svo sem skurðstofum.

Í náttúrunni gegnir mygla mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna eins og fallinna laufa og dauðra plantna. Hins vegar ætti að forðast mygluvöxt innandyra, þar sem hann getur haft neikvæð áhrif á byggingar og heilsu.

Myglugró eru stöðugt til staðar í loftinu, bæði utandyra og innandyra. Ef rakastig hækkar í húsnæði eða byggingarefni, getur mygla byrjað að vaxa, sérstaklega ef rakavandamálið er ekki greint eða lagað tímanlega. Mygla getur vaxið á nær hvaða lífræna efni sem er, svo sem timbri, pappír, teppum, einangrun og matvælum, svo lengi sem nægur raki og súrefni eru til staðar.

Myglusveppir fjölga sér með gróum sem eru svo smá að þau sjást ekki með berum augum. Með tímanum getur mygla skemmt yfirborð þess sem hún vex á. Þótt ómögulegt sé að fjarlægja öll myglugró úr innilofti, er hægt að stjórna mygluvexti með því að halda rakastigi í skefjum.

Rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli raka og myglu í húsnæði og ýmissa heilsufarsvandamála, eins og astma, öndunarfærasýkinga og annarra lungnasjúkdóma. Hins vegar hefur ekki verið sannað að bein orsakatengsl séu á milli mygluvandamála innandyra og heilsufarslegra einkenna.

Það er þó ljóst að möguleg heilsufarsáhrif af mygluvexti gera það nauðsynlegt að koma í veg fyrir að hann festi rætur í byggingum. Ef mygla greinist, ætti að hreinsa hana tafarlaust og finna orsökina til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Mygla getur myndað ofnæmisvaka, ertandi efni og í sumum tilfellum eiturefni (mycotoxin).

Þó að mygla valdi ekki alltaf vandræðum, getur of mikil uppsöfnun gróa innandyra verið skaðleg, sérstaklega þar sem þau eru svo smá að þau berast auðveldlega inn í öndunarfærin.

Einkenni

Hér er listi yfir þau einkenni sem talin eru geta átt sér stað í umhverfisveikindum, við erum eins misjöfn og við erum mörg og mögulega ert þú með önnur einkenni sem eru ekki á þessum lista.

Athugið að þessi einkenni eru þekkt í umhverfisveikindum en ekki er hægt að staðfesta með fræðigreinum orsakasamhengi á þeim öllum.

Einkennin geta verið mörg og frá ólíkum líffæra kerfum og er því oft erfitt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að finna rót vandans. Mikilvægt er að horfa á líkamann sem eina heild og læra að tengja saman einkennin.

  • Húðvendamál
  • Öndunarfæri
  • Hormónaójafnvægi
  • Orkuleysi
  • Minnisleysi
  • Erfiðleikar með að “finna” orð
  • Sjúntruflanir
  • Meltingarvandamál
  • Þvagfærasýkingar
  • Taugaeinkenni
  • Einkenni frá Hjarta og æðakerfi
  • Svefntruflanir
  • Breytingar í skapgerð

Linda Gunnarsdóttir