Ragna Ingólfsdóttir
Jóga kennari
Heilsunuddari
Ég hef stundað hreyfingu allt mitt líf og elska að hreyfa mig. Ég stundaði badminton frá 8 ára aldri og var síðan atvinnumaður í badmintoni í yfir 10 ár og ferðaðist og keppti um allan heim. Ég keppti tvisvar sinnum á Ólympíuleikunum fyrir Íslands hönd, árin 2008 og 2012, en það var minn draumur frá barnæsku.
Ég kynntist jóga í gegnum minn feril sem afreksíþróttakona og hef mikla trú á jóga fyrir almenna vellíðan á sál og líkama. Ég lærði til jógakennara bæði til þess að efla sjálfa mig en einnig til þess að geta leitt jóga fyrir aðra og þannig deilt þeirri yndislegu reynslu sem ég hef fundið í gegnum iðkunina.
Ég starfaði hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands í 8 ár eftir að ferli mínum í badmintoni lauk. Það var dýrmæt reynsla að kynnast íþróttahreyfingunni frá öðru sjónarhorni. Ég er nú nemi á heilsunuddbraut í Fjölbraut í Ármúla og lýk því námi vorið 2023. Ég hlakka mikið til að leiða jógaflæði í Endurheimt og hef mikla trú á því að mín lífsreynsla, t.d. úr íþróttahreyfingunni, jóganáminu og heilsunuddinu muni nýtast mér sem jógakennari og skila sér á dýnuna og til ykkar.
Ég mun leiða hópinn mjúkt flæði og YIN yoga/yoga nidra þar sem lögð verður áhersla á mjúkar jógaæfingar, ásamt því að við gerum öndunaræfingar og leidda slökun í lok hvers tíma.