Líkamsmiðuð sálræn meðferð

Hvað er líkamsmiðuð sálræn meðferð?

Um er að ræða meðferðarnálgun sem á ensku kallast „body“ eða „somatic psychotherapy“ og er sálræn meðferð þar sem líkamleg skynjun og upplifun er tekin með. Skoðað er hvernig reynsla og upplýsingar sitja í líkamanum ekki síður en í huganum og höfðinu.

Það merkilega er að hugurinn er í raun mjög takmarkaður. Oft teljum við okkur vita eitthvað en það getur verið mjög yfirborðskennt. Þegar við í alvöru tengjumst inn á við og hlustum á allt kerfið, þá fáum við oft upplýsingar sem liggja miklu dýpra og gefa nýjan skilning og innsýn.

Til eru nokkrar nálganir sem flokkast sem líkamsmiðaðar og er EMDR meðferð sem margir hafa heyrt um til dæmis í þeim flokki. Það sem hefur vakið athygli á líkamsmiðaðri sálrænni meðferð undanfarin ár eru rannsóknir undanfarna áratugi á áhrifum áfalla og erfiðrar reynslu á manneskjuna. Komið hefur í ljós að þegar verið er að vinna með áföll þá er samtalsmeðferð með áherslu á hugræna úrvinnslu ekki nóg.

Áföll og erfið reynsla hefur mikil áhrif á allt kerfið og situr í líkamanum, meðal annars í taugakerfinu. Því er mjög mikilvægt að vinna heildrænt og taka líkamann með þegar unnið er úr áföllum.

Bandaríski geðlæknirinn og vísindamaðurinn Bessel van der Kolk sem gaf út bókina „The body keeps the score“ árið 2014 er einn af þeim sem hafa haft mikil áhrif á þessa þróun. Einnig hefur uppfærð sýn á virkni og hlutverk ósjálfráða taugakerfisins þegar kemur að tilfinningastjórnun, líðan og upplifun öryggis haft áhrif. Rannsóknir taugavísindamannsins Stephen Porges hafa varpað nýju ljósi á starfsemi og mikilvægi flökkutaugarinnar (vagus) en hann er upphafsmaður Polyvagal kenningarinnar.

Það er ótrúlega öflugt að vinna líkamsmiðað, því þannig er oft hægt að komast hratt að kjarna vanda sem annars tæki langan tíma að átta sig á. Með því að fara í gegnum líkamsskynjun og upplifun fáum við aðgang að ómeðvituðum upplýsingum sem ekki er hægt að fá aðgang að með hugrænni vinnu eingöngu.

Margrét Gunnarsdóttir

Sálmeðferðarfræðingur MSc

EMDR meðferðaraðili 

Sérfræðingur í geðheilsusjúkraþjálfun með áfallameðferð sem áherslusvið

Hvað er EMDR meðferð?

EMDR er heildstæð sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla. Sumir þættir EMDR meðferðar eru einstakir fyrir þá nálgun en meðferðin nýtir einnig ýmsa þætti úr öðrum eldri, árangursríkum meðferðarformum, s.s. hugrænni atferlismeðferð og dýnamískum meðferðarformum. EMDR meðferð snýst um úrvinnslu upplýsinga, svo sem erfiðra minninga, hugsana og tilfinninga.

Venjulega vinnur einstaklingurinn sjálfkrafa úr erfiðri reynslu. Í sumum tilvikum þegar reynslan er yfirþyrmandi eða áföll endurtaka sig, getur farið svo að ekki næst að vinna úr áfallinu. Slík óuppgerð áföll og minningar um þau geta varðveist í nær upprunalegu formi í heilanum. Minningarnar eiga það síðan til að hafa neikvæð áhrif á hegðun og líðan einkum ef viðkomandi upplifir eitthvað sem minnir á upphaflegu reynsluna.

Sjá nánari upplýsingar hér: https://emdr.is/

 

Ef vandamálið er afmarkað má gera ráð fyrir 5-10 viðtölum til að vinna úr vanda.

Ef vandamálið er djúpstætt og flókið og á t.d. rætur í æsku þarf að gera ráð fyrir lengri meðferð.

Forsíða
Um okkur
Liðsheildin
Sjúkraþjálfun
Meltingar- og næringarráðgjöf
Heilsufarsmælingar
Markþjálfun
Fræðsla
Námskeið
Umhverfisveikindi - Mygla - Efnaóþol
Hafa samband

Lyngháls 4                          (gengið inn bakatil)                  110 Reykjavík                          Sími: 565-5500 endurheimt@endurheimt.is

9:00-13:00 afgreiðslan opin 8:00–16:00 símsvörun